Æfingar hefjast, Fjarðarmót og fleira

Æfingar eru að hefjast þessa dagana. Hákarlahópurinn er þegar byrjaður að æfa af krafti, Sverðfiskahópurinn (eldri) byrjar 23. ágúst, Höfrungar og Sverðfiskar (yngri) byrja svo 29. og 30. ágúst. Æfingatímar eru þeir sömu og voru í fyrra hjá öllum hópum. Hallgrímur Þór Harðarson verður áfram yfirþjálfari en hefur svo gott fólk sér til aðstoðar. Íþróttaskólinn hefst svo 3. september. Vinna stendur yfir við að skrá námskeiðin þannig að fljótlega verður hægt að skrá iðkendur á námskeið í gegnum skráningarhnappana hér fyrir ofan. Látið verður vita þegar skráning hefst en stefnt er á að bjóða upp á aðstoð við skráningu á æfingatíma 29. ágúst þannig að öllum er velkomið að koma í Ásvallalaug og klára skráninguna þar.

Nú hefur verið ákveðið að bjóða upp á Garpahóp. Garpahópurinn er hugsaður fyrir þá sem eru eldri og vilja draga úr æfingum en vilja samt halda áfram að mæta og æfa í góðum félagsskap, þó ekki af fullum þunga. Garparnir munu æfa við hliðina á Hákörlunum þrisvar í viku og klukkutíma í senn. Æfingar verða mánudaga, miðvikudaga og föstudaga, frá 17:00 til 18:00. Fyrsta æfing er 22. ágúst.

Hið árlega Fjarðarmót verður haldið 17. september næstkomandi og markar það að vanda upphaf keppnistímabilsins. Nánari tímasetningar verða auglýstar síðar.

Enn er hægt að heita á hlauparana okkar í Reykjavíkurmaraþoninu í gegnum síðuna hlaupastyrkur.is. Við hvetjum alla til að senda þeim styrk og styrkja um leið uppáhalds íþróttafélagið sitt.

Scroll to Top