Róbert Ísak og Anna Rósa eru íþróttafólk Fjarðar

Í dag var uppskeruhátíð Fjarðar loksins haldin. Við byrjuðum á fjölskyldudegi í sundlauginni þar sem gleðin var við völd og allir nutu sín vel. Svo fórum við yfir á Ásvelli þar sem allir iðkendur fengu viðurkenningu fyrir æfingar vetrarins og þeir sem stóðu sig best fengu verðlaun. Ragnar Björnsson fékk hvatningabikarinn í boccia og Birnir Snær Jökulsson fékk Ólafsbikarinn sem er hvatningabikar sundiðkenda. Róbert Ísak Jónsson og Anna Rósa Þrastardóttir voru svo valin íþróttakarl og íþróttakona Fjarðar. Gissur Guðmundsson mætti að vanda og afhendi þeim verðlaun. Svo bauð foreldrafélagið upp á glæsilega pylsuveislu eftir viðurkenningahátíðina.

Mikið var nú gott að geta hist aftur og hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá hátíðinni.

Róbert Ísak með brons á Evrópumótinu

Róbert Ísak Jónsson er þessa dagana að gera góða hluti á Evrópumóti fatlaðra í sundi sem er haldið á Madeira í Portúgal þessa dagana. Meðal þess sem Róbert hefur afrekað á þessu móti er:

  • 5. sæti í 200m skriðsundi.
  • Tvö Íslandsmet í 100m baksundi þar sem hann bætti ríkjandi Íslandsmet um tæpar tvær sekúndur. Það skilaði honum í 7. sæti í úrslitum.
  • 9. sæti (6. í Evrópu) í 100m bringusundi.
  • Brons í 200m fjórsundi þar sem hann synti alveg við sinn besta tíma.

Frábær árangur hjá Róberti sem auk þess að keppa í sundi fagnaði 20. afmælisdegi sínum í Portúgal. Til hamingju með árangurinn og stórafmælið Róbert Ísak.


Mynd: Sandra Hraunfjörð

Aðalfundarboð

Aðalfundur Fjarðar verður haldinn þriðjudaginn 23. mars 2021 í Ásvallalaug, fundarsal 2. hæð og hefst kl. 20:00.
Dagskrá er sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Reikningar félagsins.
4. Skýrsla stjórnar og reikningar lagðir fyrir fund til samþykktar.
5. Skýrsla foreldrafélags.
6. Kosið í fastar nefndir félagsins.
7. Lagabreytingar.
8. Kosning stjórnar og félagslegra skoðunarmanna reikninga félagsins.
9. Félagsgjöld/árgjöld.
10. Önnur mál.
11. Fundarslit.

Opnað hefur verið fyrir skráningar á vorönn 2021

Góðan daginn og gleðilegt ár.
Það er búið að opna fyrir skráningu inn á mínum síðum hjá Hafnarfjarðarbæ eða inni á https://ibh.felog.is svo hægt er að byrja að skrá á námskeið. Ath. passa upp á að skrá rétt í flokka hvers iðkanda því ekki er hægt að breyta skráningu í flokk eftir á, og greiða þarf það gjald eða fá endurgreitt eftir að námskeið hefur verið að fullu greitt.

Einnig viljum við benda þeim sem eiga rétt á sérstökum frístundastyrk að nýta sér það. Sjá má nánar um það og kanna hvort þú hafir rétt á því inni á island.is