Lög

Lög Íþróttafélagsins Fjarðar

1 gr.

Félagið heitir Fjörður og hefur aðsetur og varnarþing í Hafnarfirði. Félagið skal vera aðili að Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar og Íþróttasambandi fatlaðra og því háð lögum og reglum þessara aðila.

2 gr.

Markmið félagsins er að efla íþróttaiðkanir fatlaðra, jafnframt því að stuðla að bættri aðstöðu fatlaðra til íþróttaiðkunar. Skal það gert meðal annars með því að:

 1. halda uppi æfingum og kennslu fyrir félaga sína.
 2. halda uppi fræðslu um íþróttir með ýmsum hætti.
 3. standa fyrir og taka þátt í mótum.
 4. auka innbyrðis kynni félagsmanna.

3 gr.

Félagsmaður getur hver sá orðið sem áhuga hefur á íþróttum fatlaðra. Félagi í Firði verður að gangast undir lög og skyldur félagsins og vera samþykktur af stjórn þess.

 • Virkir félagar teljast þeir sem sækja æfingar hjá félaginu og greiða til þess æfinga- og eða félagsgjöld.
 • Einnig þjálfarar og þeir sem í stjórn þess sitja eða gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið.
 • Þeir einir hafa umræðu- og atkvæðarétt á aðalfundi/félagsfundi sem skuldlausir eru við félagið.
 • Ekki er heimilt að greiða atkvæði í umboði annars félaga að honum fjarverandi en foreldrar eða forráðamenn þeirra félagsmanna, yngri en 18 ára, sem tilgreindir eru hér að framan hafa umræðu- og atkvæðarétt á aðalfundi/félagsfundi fyrir hönd þeirra umbjóðenda. Þó getur hver fundarmaður aldrei farið með meira en eitt atkvæði.

4 gr.

Stjórn félagsins skulu skipa 5 menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi, auk tveggja varamanna. Stjórn skal kosin á aðalfundi, nema aðeins komi fram ein uppástunga, en í þeim tilfellum eru þeir sem stungið er upp á sjálfkjörnir. Kosning á aðalfundi má fara fram með handauppréttingu, þó skal kosning vera leynileg ef þess er óskað. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum.

Kosning stjórnar fer þannig fram: Formaður skal kosinn fyrstur til eins árs. Næst skulu kosnir tveir aðalmenn, og einn varamaður í aðalstjórn til tveggja ára. Að lokum skal kjósa tvo félagslega skoðunarmenn reikninga. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

5 gr.

Stjórninni ber að gæta hagsmuna félagsins í öllum greinum. Hún hefur umráðu yfir eignum þess og henni ber að ávaxta sjóði félagsins á sem hagkvæmastan hátt.
Stjórnin ræður starfsemi félagsins í aðalatriðum og boðar til funda.
Stjórnin getur enga fullnaðarákvörðun tekið nema meirihluti stjórnarmanna séu henni fylgjandi.
Stjórnin getur vikið mönnum úr félaginu áliti hún framkomu þeirra félaginu til vansa. Þó getur viðkomandi óskað þess að málið verði tekið fyrir á félagsfundi.

6 gr.

Haldin skal fundargerðarbók og reikningar félagsins skulu miðast við áramót.

7 gr.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.

Rétt til setu á aðalfundi með atkvæða- og tillögurétt sjá 3. gr. í lögum þessum.

Aðrir sem eiga rétt á setu á aðalfundi félagsins, með málfrelsi og tillögurétt eru: kjörnir skoðunarmenn, nefndarmenn, heiðursfélagar, fulltrúi ÍBH, fulltrúi ÍSÍ, fulltrúi ÍF og aðrir þeir sem stjórn félagsins ákveður að bjóða til fundarins.

Aðalfundur skal haldinn árlega fyrir 31. mars og skal hann boðaður með minnst tveggja vikna fyrirvara. Í auglýsingu skal dagskrá fundar koma fram.

Málefni sem félagar óska að tekin verði fyrir á aðalfundinum, skulu tilkynnt stjórn félagsins skriflega a.m.k 10 dögum fyrir aðalfund.

Fundurinn er lögmætur, ef löglega hefur verið til hans boðað.

Hver félagi hefur aðeins 1 atkvæði á aðalfundi Fjarðar.

8 gr.

Aukafund má halda, ef nauðsyn krefur, skv. ákvörðun stjórnar eða með skriflegri ósk 20% gildra félagsmanna.

Alla boðunar- og tilkynningarfresti til aukafundar má hafa helmingi styttri en til reglulegs aðalfundar.

Rétt til setu á aukafundi hafa sömu aðilar og höfðu rétt til setu á aðalfundi.

Á auka fundi má ekki gera lagabreytingar og aðeins kjósa bráðabirgðastjórn.

9 gr.

Á aðalfundi skulu mál tekin fyrir sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Formaður flytur skýrslu stjórnar.
 3. Gjaldkeri gefur skýrslu um fjárhag félagsins og skuli reikningar liggja frammi endurskoðaðir af kjörnum skoðunarmönnum félagsins.
 4. Umræða um skýrslu stjórnar og reikningar lagðir fram til samþykktar.
 5. Nefndir gefa skýrslu (ef við á).
 6. Kosið í fastar nefndir félagsins (ef við á).
 7. Lagabreytingar.
 8. Aðrar tillögur sem eru til afgreiðslu á fundinum.
 9. Kosning stjórnar félagsins og félagslegra skoðunarmanna reikninga samkvæmt 4. gr. í lögum þessum.
 10. Félagsgjöld/Ársgjöld ákveðin. Aðalfundi er heimilt að vísa þessu til stjórnar.
 11. Önnur mál.
 12. Fundarslit.

10 gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og nægir einfaldur meirihluti atkvæða til þess að lagabreyting sé lögleg. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórninni a.m.k. 16 dögum fyrir aðalfund. Ef lagabreytingar liggja fyrir aðalfundi skal það auglýst í fundarboði. Aðalfundur getur með meirihluta atkvæða viðstaddra leyft að taka fyrir mál, sem komið er fram, eftir að dagskrá fundarins var auglýst.

11 gr.

Til að slíta félaginu þarf samþykki 4/5 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Ef slíkt er samþykkt skal boða annan félagsfund innan tveggja mánaða, sem eingöngu skal fjalla um slitin. Séu slit félagsins einnig samþykkt á þeim fundi með 4/5 hluta greiddra atkvæða er félaginu endanlega slitið.

Eignir félagsins skal þá varðveita hjá Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar, þar til annað félag með sama tilgangi er stofnað á félagssvæðinu, en þá skulu þær renna til þess. Ef slíkt félag er ekki stofnað innan fimm ára frá slitum félagsins renna framangreindar eignir til Íþróttabandalags Hafnarfjarðar.

Reglugerð um starfssvið og starfsreglur stjórnar félagsins.

 1. Stjórnin skal halda stjórnarfundi eftir því sem málefni gefa til hverju sinni.
 2. Formaður hefur forsæti á félags og stjórnarfundum. Hann getur þó skipað fundarstjóra. Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins út á við í þeim málum sem aðrir hafa eigi verið til kjörnir eða ráðnir. Hann skal sjá um að boða stjórnarfundi. Þó er honum skylt að halda stjórnarfundi innan þriggja daga, ef tveir eða fleirri stjórnarmenn óska þess.
 3. Varaformaður tekur sæti formanns í forföllum hans. Ennfremur aðstoðar hann formann við fundarstjórn og aðrar framkvæmdir vegna félagsins eftir því sem þörf krefur.
 4. Gjaldkeri sér um fjármál félagsins og veitir móttöku æfinga- og félagsgjalda svo og öðru fé sem félaginu áskotnast. Hann skal annast þær útborganir sem nauðsynlegar eru og stjórn félagsins ákveður. Gjaldkeri skal halda nákvæmt bókhald yfir tekjur og gjöld félagsins og geta sýnt yfirlit með viku fyrirvara um fjárhag þess, óski stjórn eftir því. Gjaldkeri ber ábyrgð á sjóðum félagsins og skulu mál út af sjóðþurrð hjá félaginu tekin fyrir hjá gestarétti Hafnarfjarðar. Allir reikningar félagsins skulu lagðir fyrir stjórn félagsins, yfirfarnir af kjörnum skoðunarmönnum félagsins, í síðasta lagi 7 dögum fyrir aðalfund. Reikningar skulu undirritaðir af öllum aðalstjórnarmönnum félagsins ásamt kjörnum skoðunarmönnum fyrir aðalfund.
 5. Ritari skal halda nákvæma fundargerðabók yfir fundi félagsins og stjórnarinnar.
 6. Meðstjórnandi skal vera öðrum stjórnarmeðlimum til aðstoðar sem unnt er.
 7. Varamenn sitja stjórnarfundi og hafa fullan atkvæðisrétt sem aðrir stjórnarmenn.

Innri málefni félagsins.

 1. Stjórn félagsins skal sjá um ráðningu þjálfara, eins eða fleiri og framkvæmdastjóra fyrir hvert tímabil, ef þess gerist þörf, og semja um laun þeirra. Ráði stjórnin framkvæmdastjóra skal hann sjá að hluta til um daglegan rekstur og annað tilfallandi eftir nánara samkomulagi, sjá nánar í sérstakri starfslýsingu framkvæmdastjóra.
 2. Stjórn félagsins tekur í samráði við yfirþjálfara ákvarðanir um aðgerðir ef um agabrot er að ræða af félagsmanni. Það sama á við ef þjálfari brýtur af sér í starfi.
 3. Reglusemi skal í hávegum höfð í allri starfsemi félagsins.(sjá nánar forvarnarstefnu félagsins)
 4. Verðlaunagripir og gögn félagsins skulu vera í vörslu stjórnar nema hún ákveði annað.
 5. Búningur félagsins skal ákveðinn á félags- eða aðalfundi.

Reglugerð þessari má einungis breyta á aðalfundi.

Reglugerð félagsins um heiðursviðurkenningar.

 1. Gullmerki Fjarðar fyrir tíu ára frábært starf í þágu félagsins. Merkið má veita á fimm ára fresti. Undantekningu má veita ef meirihluti stjórnar álítur þess þörf, t.d. fyrir frábært afrek.
 2. Silfurmerki Fjarðar fyrir fimm ára frábært starf í þágu félagsins eða mjög góð afrek í keppni. Merkið má veita samkvæmt úrskurði stjórnar.
 3. Bronsmerki Fjarðar fyrir góða ástundun á æfingar og annað er stjórnin ákveður. Stjórn félagsins má veita merki þetta eftir þörfum.

Ákvörðun um breytingu á reglugerð þessari er í höndum stjórnar Fjarðar.

Reglugerð um forvarnarstefnu félagsins.

Fjörður er sjálfstætt starfandi íþróttafélag. Félagið rekur öflugt íþrótta- og unglingastarf sem er í sjálfu sér ein allra besta forvörn gegn ávana- og fíkniefnum í dag. Þannig vinnur félagið markvisst að heilbrigðari lífsháttum og jákvæðari sýn á lífið og tilveruna.

Forvarnarstefna Fjarðar grundvallast af:

 1. Öflugu íþróttastarfi
 2. Forvarnarfræðslu – t.d. með fræðslufundum.
 3. Agareglum – þar sem stranglega er bannað að hafa ávana- og fíkniefni um hönd hvarvetna þar sem iðkendur koma fram fyrir hönd Fjarðar.
 4. Öflugu félagsstarfi – Þar sem leitast er við að efla heilbrigða lífshætti, samkennd og Lífgleði án vímuefna. Þetta er gert t.d. með ýmiskonar skemmtunum, æfingabúðum og ferðalögum.
 5. Öflugu samstarfi við foreldra – þar sem leitast er við með ýmsum hætti að styrkja samband foreldra bæði við þjálfara félagsins svo og stjórn. Þannig rekur Fjörður öflugt tengiliðastarf innan félagsins.

Reglugerð um jafnréttisstefnu félagsins.

Íþróttafélagið Fjörður er lýðræðislega uppbyggt félag sem byggist á sjálfboðaliðastarfi.

Jöfn þátttaka kvenna og karla í ákvarðanatöku og stefnumótun er nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi.

Markmið jafnréttisstefnu Fjarðar er að:

Allt starf innan félagsins uppfylli ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og sé í samræmi við Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum.

Íþróttafélagið Fjörður hyggst uppfylla þessi markmið með því að :

Jafnréttisstefnan verði samofin öllu starfi og markvisst fléttuð inn í alla stefnumótun og verklag innan félagsins.

Allir iðkendur innan vébanda félagsins geti iðkað íþrótt sína og unnið að sínum persónulegu markmiðum óháð kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðerni, kynþætti, litarhætti, ætterni, efnahag, kynhneigð eða stöðu að öðru leyti.

Að jafnræðis og sanngirni sé gætt við úthlutun æfingatíma.

Að sömu kröfur séu gerðar til hæfni þjálfara drengja og stúlkna og sömu laun séu greidd fyrir sambærilega hæfni og störf.

Að bæði karlar og konur verði hvött til þátttöku í innra starfi félagsins og að í ábyrgðarstörf innan þess veljist sem jafnast hlutfall karla og kvenna hverju sinni.

Vinna gegn staðalímyndum kynjanna.

Gera árlega aðgerðaáætlun þar sem mælanlegir mælikvarðar eru nýttir til að kanna stöðuna innan félagsins og til endurbóta þar sem þeirra er þörf.

Reglugerð um foreldraráð félagsins.

 1. Foreldraráð er félag foreldra og forráðamanna iðkenda í viðkomandi félagi/deild eða flokk/hópíþróttafélags. Þrír til fimm foreldrar eru skipaðir til eins árs í senn.
 2. Hlutverk foreldraráðs er fyrst og fremst að:

• standa vörð um hagsmuni iðkenda í félaginu/flokknum.

• efla tengsl heimila og íþróttafélags.

• efla samskipti milli iðkenda, foreldra annars vegar og stjórnenda og þjálfara hins vegar.

• stuðla að bættri vellíðan iðkenda í leik og starfi.

• stuðla að betri árangri í starfi íþróttafélags.

 1. Hvert foreldraráð ákveður hvernig það vill starfa til að reglum þessum og markmiðum 2. greinar verði náð.
 2. Foreldraráðinu ber að skila inn rekstraryfirliti og starfsskýrslu fyrir aðalfund félagsins.

Reglugerð um fjáraflanir félagsins.

Allar fjáraflanir og meðferð fjármuna eru á ábyrgð stjórnar Fjarðar og því er nauðsynlegt að vel sé vandað til ákvarðana um fjáraflanir. Iðkendur og forráðamenn þeirra skulu vel upplýstir um fyrirhuguð verkefni, kostnað og fjáraflanir sem áætlaðar eru til að standa straum af kostnaði.

 1. Fjáraflanir einstakra flokka skulu vera á vegum viðkomandi foreldraráðs eða iðkenda sjálfra, ef þeir eru 18 ára eða eldri. Áður en ráðist er í fjáröflun skal viðkomandi hópur eða foreldraráð tilnefna ábyrgðarmenn fjáröflunarinnar.
 2. Áður en ráðist er í fjáröflun á vegum einstakra flokka innan félagsins skal liggja fyrir samþykki aðalstjórnar. Leita skal samþykkis með eins góðum fyrirvara og unnt er, tilgreina í hverju fjáröflun er fólgin og til hvaða verkefna verja skal ágóða.
 3. Ekki er heimilt að leita beint til fyrirtækja um beinan fjárstuðning þar sem slíkt getur stangast á við fjáraflanir félagsins til sameiginlegra verkefna, nema með samþykki aðalstjórnar.
 4. Ekki er leyfilegt að fara inn á þær fjáraflanir sem eru merktar vissum flokkum nema með leyfi stjórnar.
 5. Æskilegt er að einstaklingar sem afla fjár til starfsemi félagsins séu við fjáraflanir merktir félaginu og gefi upplýsingar fyrir hvern og til hvaða verkefnis fjárins er aflað.
 6. Fjáröflun skal miðast við að standa straum af beinum kostnaði vegna viðburðar, svo sem kostnaði við þátttöku í mótum, beinum ferða og dvalarkostnaði. Eingöngu skal safnað fyrir kostnaði vegna iðkenda sjálfra og eftir atvikum fyrir fararstjóra og þjálfara.
 7. Ábyrðarmenn fjáröflunar skulu skilgreina fyrir hverja fjáröflun fyrir sig hvort sé að ræða einstaklings eða hópfjáröflun.
 8. Einstaklingar geta ekki fengið endurgreitt það sem safnast hefur þótt viðkomandi hætti við að taka þátt í þeim viðburði sem safnað er fyrir. Í slíkum tilvikum rennur fé sem merkt var viðkomandi einstaklingi sameiginlegan sjóð flokksins.
 9. Ábyrgðarmenn fjáröflunar geta sótt um undanþágur frá reglum þessum til aðalstjórnar Fjarðar.

Reglugerð um yfirþjálfara.

 1. Er ráðinn af stjórn Fjarðar til að hafa faglega umsjón með öðrum þjálfurum í deild ásamt því að þjálfa einhvern flokk innan deildar.
 2. Markar þjálfunarstefnu, markmið og áætlun í samvinnu við stjórn Fjarðar og sér til þess að aðrir þjálfarar setji markmið og fylgi þeim.
 3. Er tengiliður foreldra við þjálfara þegar upp koma erfiðleikar s.s. eineltismál oþh.
 4. Sér um að manna forföll þjálfara deildar. Og að manna þjálfarastöðu/aðstoðarmann á mótum deildar.
 5. Sér um skráningar á mót sem stjórn Fjarðar í samráði við yfirþjálfara hefur skilgreint á mótaskrá deildarinnar.
 6. Aðstoðar stjórn deildar við að taka saman upplýsingar vegna Uppskeruhátíða

Umhverfisstefna Fjarðar

Umhverfisstefna Íþróttafélagsins Fjarðar er yfirlýsing um helstu áherslur félagsins varðandi umhverfismál.
 
Til þess að stuðlað sé að minni mengun og sóun verðmæta leggur Íþróttafélagið Fjörður áherslu á eftirfarandi þætti í daglegu starfi:
 
 • Endurvinnslu í mannvirkjum félagsins
 • Endurnýtingu á sem flestum sviðum starfseminnar
 • Orkusparnað í mannvirkjum félagsins
 • Notkun á umhverfisvænum efnum
 • Forðast notkun á pappír og einnota umbúðum sé þess kostur
 • Félagið hvetur til iðkendur sína og félagsmenn til almennrar þátttöku í umhverfisvernd
Scroll to Top