Róbert Ísak fer á kostum í Sheffield

Róbert Ísak Jónsson setti sitt fyrsta Íslandsmet um helgina.Róbert Ísak Jónsson úr Firði og Þórey Ísafold Magnúsdóttir úr ÍFR hafa verið að synda á Opna breska mestaramótinu sem fer fram í Sheffield þessa dagana. Skemmst er frá því að segja að Róbert Ísak hefur farið gersamlega á kostum og setti meðal annars Íslandsmet í 100m baksundi í flokki S14 þegar hann synti á 1:07,81 og varð 15. stigahæsti sundmaðurinn af 96 keppendum. Að auki synti hann í 100m bringusundi þar sem hann varð 7. stigahæsti sundmaðurinn af 92 á tímanum 1:12,61. Í 200m fjórsundi varð hann 8. stigahæsti sundmaðurinn af 104 á tímanum 2:18,73. Í 100m flugsundi var hann 10. stigahæstur af 73 á tímanum 1:03,18 og í 200m skriðsundi varð hann 12. stigahæstur af 43 á tímanum 2:07,72. Þetta er sannarlega glæsilegur árangur hjá Róberti Ísaki sem er aðeins 16 ára og á sannarlega framtíðina fyrir sér og var að bæta nánast alla sína tíma á mótinu. Róbert Ísak hóf sín fyrstu skref hjá Firði en hefur undanfarið æft með ófötluðum hjá SH og hefur verið að vinna til verðlauna í sínum aldursflokki meðal ófatlaðra. Það er ljóst að með þessu áframhaldi verða Íslandsmetin fleiri. Við óskum Róberti Ísaki innilega til hamingju með frábæran árangur og sitt fyrsta Íslandsmet.

Scroll to Top