Róbert Ísak er Best Male Junior athlete á World Series mótaröðinni

44057197_1789717934470262_7115447533026934784_nVegna mistaka á Opna breska meistaramótinu í Sheffield fyrr á árinu þá skiluðu þau stig sér ekki í kerfið hjá IPC. Eftir að það var leiðrétt kom í ljós að Róbert Ísak Jónsson hefði með réttu átt að fá verðlaunin „Best Male Junior athlete“ á World Series mótaröðinni og mun hann fá þau verðlaun afhent á næsta alþjóðlega móti sem hann tekur þátt í. Þetta kórónar aldeilis frábært ár hjá Róberti Ísak en á árinu hefur hann meðal annars:

  • sett heims- og Evrópumet í 400m fjórsundi í flokki S14
  • sett 18 Íslandsmet
  • unnið 14 Íslandsmeistaratitla
  • er tvöfaldur bikarmeistari í sundi
  • fengið tvenn silfurverðlaun á Evrópumóti fatlaðra í sundi
  • unnið Sjómannabikarinn á Nýársmóti ÍF þriðja árið í röðRóbert Ísak er að sjálfsögðu ekki eini íþróttamaður Fjarðar sem hefur gert góða hluti á árinu en auk Róberts hafa Tanya Jóhannsdóttir, Guðfinnur Karlsson, Hjörtur Már Ingvarsson, Ragnar Ingi Magnússon og Aníta Ósk Hrafnsdóttir unnið til Íslandsmeistaratitla á árinu. Hjörtur Már og Guðfinnur hafa báðir synt undir gildandi heimsmetum í sínum flokkum, Hjörtur Már í 200m bringusundi í flokki SB4 og Guðfinnur í 800m skriðsundi í flokki S11. Í byrjun desember munu svo fulltrúar Fjarðar taka þátt á Norðurlandamótinu í Finnlandi og gefst þar tækifæri til að bæta fleiri verðlaunum við safnið. Þar að auki varð Fjörður bikarmeistari ÍF í sundi 11. árið í röð, fyrirliðar voru Tanya Jóhannsdóttir og Ragnar Ingi Magnússon.

Fjörður óskar að sjálfsögðu öllum þessum frábæru íþróttamönnum til hamingju með glæsilegan árangur og hlakkar til að fylgjast með þeim á komandi árum.

Scroll to Top