Róbert Ísak sjötti á Paralympic á nýju Íslandsmeti

Róbert Ísak Jónsson var rétt í þessu að koma í mark í 100m flugsundi í sjötta sæti á Paralympic leikunum í Tokyo. Hann kom í mark á tímanum 58,06 sem er nýtt Íslandsmet og bæting á Íslandsmetinu sem hann setti í undanrásum í nótt. Ekki nóg með að hann hafi bætt Íslandsmetið í 100m flugsundi heldur var millitíminn einnig bæting á Íslandsmetinu í 50m flugsundi. Róbert Ísak kom inn á leikana með 13. besta tímann, varð svo sjöundi í undanrásum á nýju Íslandsmeti og tryggði sig inn í úrslitasundið. Í úrslitunum gerði hann svo enn betur og varð sjötti. Frábær árangur hjá Róbert Ísaki og óskum við honum innilega til hamingju.

Í öðrum fréttum er það helst að æfingar í sundi eru hafnar í Höfrungahóp og Hákarlahóp en Sílin hefja æfingar 30. ágúst. Æfingatímarnir eru eftirfarandi:

Hákarlar:
Mánudagar – föstudagar: 16:00 – 18:00
Laugardagar: 9:00 – 11:30

Höfrungar:
Mánudagar, miðvikudagar og fimmtudagar: 18:00 – 19:00

Síli:
Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 17:00 – 18:00

Allar æfingar fara fram í Ásvallalaug.

Róbert Ísak fer til Tokyo

Þær gleðifregnir bárust í dag að Róbert Ísak Jónsson hefur fengið þátttökurétt á Paralympics leikunum sem haldnir verða í Tokyo í kjölfar Ólympíuleikanna. Áður höfðu þær fréttir borist að Róbert Ísak kæmist ekki á leikana þrátt fyrir að hafa náð lágmörkum vegna kvóta á íþróttamenn frá Íslandi. Í dag bárust hins vegar þau frábæru tíðindi að Róbert Ísak hefur fengið keppnisrétt á leikunum og verður þar með einn af fimm Íslendingum sem tekur þátt í leikunum.

Við óskum Róbert Ísak að sjálfsögðu innilega til hamingju með þetta og óskum honum góðs gengis. Leikarnir hefjast 24. ágúst næstkomandi.

Róbert Ísak og Anna Rósa eru íþróttafólk Fjarðar

Í dag var uppskeruhátíð Fjarðar loksins haldin. Við byrjuðum á fjölskyldudegi í sundlauginni þar sem gleðin var við völd og allir nutu sín vel. Svo fórum við yfir á Ásvelli þar sem allir iðkendur fengu viðurkenningu fyrir æfingar vetrarins og þeir sem stóðu sig best fengu verðlaun. Ragnar Björnsson fékk hvatningabikarinn í boccia og Birnir Snær Jökulsson fékk Ólafsbikarinn sem er hvatningabikar sundiðkenda. Róbert Ísak Jónsson og Anna Rósa Þrastardóttir voru svo valin íþróttakarl og íþróttakona Fjarðar. Gissur Guðmundsson mætti að vanda og afhendi þeim verðlaun. Svo bauð foreldrafélagið upp á glæsilega pylsuveislu eftir viðurkenningahátíðina.

Mikið var nú gott að geta hist aftur og hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá hátíðinni.

Róbert Ísak með brons á Evrópumótinu

Róbert Ísak Jónsson er þessa dagana að gera góða hluti á Evrópumóti fatlaðra í sundi sem er haldið á Madeira í Portúgal þessa dagana. Meðal þess sem Róbert hefur afrekað á þessu móti er:

  • 5. sæti í 200m skriðsundi.
  • Tvö Íslandsmet í 100m baksundi þar sem hann bætti ríkjandi Íslandsmet um tæpar tvær sekúndur. Það skilaði honum í 7. sæti í úrslitum.
  • 9. sæti (6. í Evrópu) í 100m bringusundi.
  • Brons í 200m fjórsundi þar sem hann synti alveg við sinn besta tíma.

Frábær árangur hjá Róberti sem auk þess að keppa í sundi fagnaði 20. afmælisdegi sínum í Portúgal. Til hamingju með árangurinn og stórafmælið Róbert Ísak.


Mynd: Sandra Hraunfjörð