Malmö open 2015 – Fjarðar-stelpurnar stóðu sig eins og hetjur!

Mynd: Þorgerður Katrín.

 

Núna rétt í þessu luku fjórar ungar sundstelpur úr Firði keppni á Malmö 0pen. Þetta var þeirra fyrsta keppni erlendis og þær sprengdu allar væntingar þjálfara og foreldra í tætlur! Hérna kemur smá ferðasaga 🙂

Við flugum allar saman út til Kaupmannahafnar snemma á fimmtudagsmorgun og fórum svo með lest yfir til Malmö. Eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu var farið að versla aðeins. Við borðuðum saman um kvöldið og fórum svo í háttinn. A föstudaginn fóru stelpurnar svo saman á æfingu í lauginni og könnuðu aðstæður. Keppni hófst svo snemma á laugardagsmorgun. Sigríður Aníta var fyrst til þess að stinga sér til sunds og keppti í 50 m skriðsundi. Þar næst kepptu allar stelpurnar í 100 m fjórsundi og var það í fyrsta skipti sem Anna Rósa, Katrín Erla og Victoría kepptu í þeirri grein. Fólkið í lauginni hafði orð á því hversu vel þær stóðu sig. Eftir hádegi kepptu þær svo allar í 100 m baksundi og 100 m bringusundi en það var einnig frumraun þeirra Önnu, Victoríu og Katrínar í þeim greinum. Í morgun, sunnudag kepptu þær allar í 100 m skriðsundi og voru tímabætingar alveg frábærar. Anna Rósa bætti sig um rúmar 12 sek, Katrín Erla um tæpar 6 sek og Sigríður Aníta um 9 sek og allir þessir tímar voru síðan á Íslandsmótinu sem fram fór í nóvember. Victoría synti 100 m skriðsund í fyrsta skitpi á mjög fínum tíma. Sigríður Aníta synti svo bæði í undanrásum og úrslitum í 50 m flugsundi og var með flotta bætingu í seinna sundinu.

Næst á dagskrá er svo keiluferð. Ferðin öll hefur verið alveg ótrúlega skemmtileg og er það ekki síður foreldrum ferðarinnar að þakka, þær hafa verið alveg frábærar bæði sem farastjórar, áhorfendur, klapplið og svo ofboðslega skemmtilegur félagsskapur!

– Helena Hrund

Scroll to Top