Hjörtur Már með Íslands- og heimsmet í 1500m skriðsundi

Hjörtur Már Ingvarsson og Guðfinnur Karlsson, úr Firði, tóku um helgina þátt í Landsbankamótinu í Reykjanesbæ og tóku þeir báðir þátt í 1500m skriðsundi. Skemmst er frá því að segja að Hjörtur Már setti nýtt, glæsilegt Íslandsmet í 1500m skriðsundi í 50m laug í flokki S6. Ekki nóg með það að Hjörtur Már hafi bætt Íslandsmetið heldur var þetta einnig nýtt heimsmet og Evrópumet. Hjörtur Már synti á 25:20,22 og bætti gamla metið sem félagi hans úr Firði, Pálmi Þór Guðlaugsson, átti um rúma hálfa mínútu. Sannarlega glæsilegur árangur hjá Hirti og óskum við honum innilega til hamingju.

Guðfinnur stóð sig einnig frábærlega og bætti skráðan tíma sinn um tvær og hálfa mínútu og kom í mark á 23:17,77 en Guðfinnur syndir í flokki S11. Sannarlega frábær árangur hjá strákunum og gott til þess að vita að sundmennirnir okkar eru í toppformi fyrir bikarmótið sem fer fram eftir tvær vikur. Þar mun Fjörður freista þess að vinna bikarinn 10. árið í röð en von er á harðri samkeppni.

Scroll to Top