Gullmót KR, Þorramót í boccia og ný lyfta í Ásvallalaug

Um helgina 10. – 12. febrúar fór fram Gullmót KR og sendi Fjörður sveit sundmanna til keppni og stóðu Fjarðarliðar sig að vanda vel. Helst má telja að Róbert Ísak Jónsson náði A lágmarki í 100m flugsundi fyrir Heimsmeistaramótið sem fer fram í Mexíkó síðar á árinu. Hjörtur Már Ingvarsson setti svo enn og aftur Íslandsmet, að þessu sinni í 200m baksundi í flokki S6. Guðfinnur Karlsson og Lára Steinarsdóttir syntu einnig á mótinu og stóðu sig mjög vel. Við óskum þessum glæsilegu sundmönnum innilega til hamingju með árangurinn.

Síðastliðinn laugardag, 18. febrúar fór svo fram hið árlega Þorramót Fjarðar í boccia. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, bæjarstjórn Garðabæjar og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar mættu með sveit á mótið sem hófst á því að Lionsklúbbur Hafnarfjarðar afhenti félaginu peningagjöf í tilefni 25 ára afmælis Fjarðar í ár. Lionsklúbburinn sá einnig um dómgæslu á mótinu og Kiwanis-konur sáu um veitingar. Mikil gleði var að vanda á mótinu og má sjá skemmtilegar myndir á Facebook síðu Fjarðar.

Að lokum má geta þess að í gær, 21. febrúar var formlega opnuð ný lyfta í Ásvallalaug sem mun auðvelda fötluðum aðgengi að sundlauginni til muna og gera öllum kleift að stunda þá hollu og góðu íþrótt sem sund er. Myndir af opnuninni má einnig sjá á Facebook síðu Fjarðar.

Scroll to Top