Flottir Fjarðarliðar á Special Olympics og Íslandsmet á Ásvallamótinu

Aníta og Gunnar Pétur
Aníta og Gunnar Pétur
Sjö Fjarðarliðar lögðu land undir fót fyrr í mánuðinum til að taka þátt i Special Olympics í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Það er ekki ofsögum sagt að árangurinn hafi verið glæsilegur og verðlaunin flæddu til Fjarðarliða. Þó voru aðeins tveir þeirra að keppa í sundi en liðsmenn okkar eru greinilega fjölhæfir og standa sig vel í öðrum iþróttum.

Sundmennirnir okkar vour þau Bára Sif Ólafsdóttir og Róbert Erwin. Bára Sif hlaut gullverðlaun í 100m baksundi og silfur í 100m skriðsundi og Róbert fékk brons í 100m skriðsundi.

Ásmundur Þór Ásmundsson og Elín Fanney Ólafsdóttir kepptu í golfi. Ásmundur nældi í silfurverðlaun á mótinu og Elín Fanney lenti í fjórða sæti, hársbreidd frá verðlaunapalli.

Unnar Ingi Ingólfsson keppti í fimleikum og gerði sér lítið fyrir og fékk gull í stökki og bronsverðlaun í hringjum.

Síðast en ekki síst er það Aníta Ósk Hrafnsdóttir sem fékk gullverðlaun í kúluvarpi, silfur i langstökki og silfur í 4x100m boðhlaupi. Þjálfari Anítu í frjálsum íþróttum er Gunnar Pétur Harðarson en saman sjá þau um að þjálfa yngsta hópinn okkar í sundinu.

Við óskum þessum frábæru íþróttamönnum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

Um helgina 16. – 17. mars fór fram Ásvallamót SH í sundi og náðu Fjarðarmenn flottum árangri þar. Hjörtur Már Ingvarsson setti tvö Íslandsmet, í 50m og 100m skriðsundi í flokki S5. Auk þess vann Róbert Ísak Jónsson til fernra verðlauna á mótinu en hann hafði sigur í 100m flugsundi, fékk silfur fyrir 200m fjórsund og brons í 200m skriðsundi og 100m bringusundi. Innilega til hamingju með þetta drengir.

Scroll to Top