Æfingar komnar af stað og frjálsar íþróttir hjá Firði

Æfingar eru nú komnar á fullt í sundi og boccia og hægt er að ganga frá skráningu. Það er nú gert á nýjan hátt í gegnu Sportabler á slóðinni https://www.sportabler.com/shop/fjordur. Í þetta skiptið er ekki hægt að greiða með kreditkorti heldur eingöngu með greiðsluseðli í heimabanka en hægt er að skipta greiðslum. Eftir áramót væntum við þess að einnig verði hægt að greiða með kreditkorti. Við hvetjum alla til að ganga frá skráningu sem fyrst. Til þess að fullnýta frístundastyrkinn frá Hafnarfjarðarbæ þarf að ganga frá skráningu í september. 

Sú nýjung mun byrja hjá okkur í október að hægt verður að æfa Frjálsar íþróttir hjá Firði. Æfingar munu verða þrisvar í viku í frjálsíþróttahúsinu í Kaplakrika, þriðjudaga og fimmtudaga kukkan 17:00 – 18:30 og laugardaga klukkan 10:30 – 12:00. Þjálfari verður Gunnar Pétur Harðarson en hann hefur áður þjálfað sund hjá Firði og hefur þjálfað frjálsar hjá ÍFR og Ösp í nokkur ár. Við hvetjum alla til að prófa að mæta á æfingar í frjálsum.

Róbert Ísak sjötti á Paralympic á nýju Íslandsmeti

Róbert Ísak Jónsson var rétt í þessu að koma í mark í 100m flugsundi í sjötta sæti á Paralympic leikunum í Tokyo. Hann kom í mark á tímanum 58,06 sem er nýtt Íslandsmet og bæting á Íslandsmetinu sem hann setti í undanrásum í nótt. Ekki nóg með að hann hafi bætt Íslandsmetið í 100m flugsundi heldur var millitíminn einnig bæting á Íslandsmetinu í 50m flugsundi. Róbert Ísak kom inn á leikana með 13. besta tímann, varð svo sjöundi í undanrásum á nýju Íslandsmeti og tryggði sig inn í úrslitasundið. Í úrslitunum gerði hann svo enn betur og varð sjötti. Frábær árangur hjá Róbert Ísaki og óskum við honum innilega til hamingju.

Í öðrum fréttum er það helst að æfingar í sundi eru hafnar í Höfrungahóp og Hákarlahóp en Sílin hefja æfingar 30. ágúst. Æfingatímarnir eru eftirfarandi:

Hákarlar:
Mánudagar – föstudagar: 16:00 – 18:00
Laugardagar: 9:00 – 11:30

Höfrungar:
Mánudagar, miðvikudagar og fimmtudagar: 18:00 – 19:00

Síli:
Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 17:00 – 18:00

Allar æfingar fara fram í Ásvallalaug.

Róbert Ísak fer til Tokyo

Þær gleðifregnir bárust í dag að Róbert Ísak Jónsson hefur fengið þátttökurétt á Paralympics leikunum sem haldnir verða í Tokyo í kjölfar Ólympíuleikanna. Áður höfðu þær fréttir borist að Róbert Ísak kæmist ekki á leikana þrátt fyrir að hafa náð lágmörkum vegna kvóta á íþróttamenn frá Íslandi. Í dag bárust hins vegar þau frábæru tíðindi að Róbert Ísak hefur fengið keppnisrétt á leikunum og verður þar með einn af fimm Íslendingum sem tekur þátt í leikunum.

Við óskum Róbert Ísak að sjálfsögðu innilega til hamingju með þetta og óskum honum góðs gengis. Leikarnir hefjast 24. ágúst næstkomandi.

Róbert Ísak og Anna Rósa eru íþróttafólk Fjarðar

Í dag var uppskeruhátíð Fjarðar loksins haldin. Við byrjuðum á fjölskyldudegi í sundlauginni þar sem gleðin var við völd og allir nutu sín vel. Svo fórum við yfir á Ásvelli þar sem allir iðkendur fengu viðurkenningu fyrir æfingar vetrarins og þeir sem stóðu sig best fengu verðlaun. Ragnar Björnsson fékk hvatningabikarinn í boccia og Birnir Snær Jökulsson fékk Ólafsbikarinn sem er hvatningabikar sundiðkenda. Róbert Ísak Jónsson og Anna Rósa Þrastardóttir voru svo valin íþróttakarl og íþróttakona Fjarðar. Gissur Guðmundsson mætti að vanda og afhendi þeim verðlaun. Svo bauð foreldrafélagið upp á glæsilega pylsuveislu eftir viðurkenningahátíðina.

Mikið var nú gott að geta hist aftur og hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá hátíðinni.