Suðurlandsmótið í boccia

Suðurlandsmótið í boccia var haldið um síðustu helgi en mótið var haldið í stað Íslandsmótsins sem átti að fara þessi helgi. Ákveðið var með hliðsjón af stöðunni varðandi Covid-19 í haust að ekki væri forsvaranlegt að halda stórt mót eins og Íslandsmót en Suðurlandsmótið var kærkomin sárabót. Fjörður mætti með vaska sveit af sex boccia spilurum og stóðu þeir sig ljómandi vel. Ingibjörg náði í fjórða sætið í 1. deild og Raggi gerði sér lítið fyrir og stóð uppi sem sigurvegari í 2. deild. Innilega til hamingju með flottan árangur. Einnig þökkum við Suðra kærlega fyrir að taka á móti okkur

Fjarðarmótið 2021

Við vitum að fyrirvarinn er stuttur en Fjarðarmótið verður haldið í Ásvallalaug 31. október næstkomandi klukkan 10:00. Upphitun hefst klukkan 9:00. Vinsamlegast sendið inn skráningar í síðasta lagi fimmtudaginn 28. október. Á mótinu verður synt samkvæmt sundreglum IPC og FINA. Keppt verður í eftirtöldum greinum:
 
25m skriðsund (með aðstoð ef þarf)
50m skriðsund
50m baksund
50m bringusund
50m flugsund
100m skriðsund
100m baksund
100m bringusund
100m flugsund
100m fjórsund
1500m skriðsund
4x50m blandað boðsund
 
Boðskrá verður send á félögin. Vinsamlegast sendið skráningar á fjordursport@fjordursport.is.
 
Bestu kveðjur,
   Íþróttafélagið Fjörður

Æfingar komnar af stað og frjálsar íþróttir hjá Firði

Æfingar eru nú komnar á fullt í sundi og boccia og hægt er að ganga frá skráningu. Það er nú gert á nýjan hátt í gegnu Sportabler á slóðinni https://www.sportabler.com/shop/fjordur. Í þetta skiptið er ekki hægt að greiða með kreditkorti heldur eingöngu með greiðsluseðli í heimabanka en hægt er að skipta greiðslum. Eftir áramót væntum við þess að einnig verði hægt að greiða með kreditkorti. Við hvetjum alla til að ganga frá skráningu sem fyrst. Til þess að fullnýta frístundastyrkinn frá Hafnarfjarðarbæ þarf að ganga frá skráningu í september. 

Sú nýjung mun byrja hjá okkur í október að hægt verður að æfa Frjálsar íþróttir hjá Firði. Æfingar munu verða þrisvar í viku í frjálsíþróttahúsinu í Kaplakrika, þriðjudaga og fimmtudaga kukkan 17:00 – 18:30 og laugardaga klukkan 10:30 – 12:00. Þjálfari verður Gunnar Pétur Harðarson en hann hefur áður þjálfað sund hjá Firði og hefur þjálfað frjálsar hjá ÍFR og Ösp í nokkur ár. Við hvetjum alla til að prófa að mæta á æfingar í frjálsum.

Róbert Ísak sjötti á Paralympic á nýju Íslandsmeti

Róbert Ísak Jónsson var rétt í þessu að koma í mark í 100m flugsundi í sjötta sæti á Paralympic leikunum í Tokyo. Hann kom í mark á tímanum 58,06 sem er nýtt Íslandsmet og bæting á Íslandsmetinu sem hann setti í undanrásum í nótt. Ekki nóg með að hann hafi bætt Íslandsmetið í 100m flugsundi heldur var millitíminn einnig bæting á Íslandsmetinu í 50m flugsundi. Róbert Ísak kom inn á leikana með 13. besta tímann, varð svo sjöundi í undanrásum á nýju Íslandsmeti og tryggði sig inn í úrslitasundið. Í úrslitunum gerði hann svo enn betur og varð sjötti. Frábær árangur hjá Róbert Ísaki og óskum við honum innilega til hamingju.

Í öðrum fréttum er það helst að æfingar í sundi eru hafnar í Höfrungahóp og Hákarlahóp en Sílin hefja æfingar 30. ágúst. Æfingatímarnir eru eftirfarandi:

Hákarlar:
Mánudagar – föstudagar: 16:00 – 18:00
Laugardagar: 9:00 – 11:30

Höfrungar:
Mánudagar, miðvikudagar og fimmtudagar: 18:00 – 19:00

Síli:
Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 17:00 – 18:00

Allar æfingar fara fram í Ásvallalaug.