Íþrótta- og ævintýrabúðir fyrir einstaklinga fædda 2005-2009

Íþrótta- og ævintýrabúðir ÍF á Laugarvatni

Íþrótta- og ævintýrabúðir ÍF verða nú haldnar í fyrsta sinn í tilefni af 40 ára afmæli Íþróttasambands fatlaðra (ÍF). Búðirnar verða fyrir einstaklinga fædda á árunum 2005-2009 með áherslu á margskonar íþróttagreinar s.s. sund, frjálsar og boltagreinar.

ÍF hefur lagt mikla áherslu á að allir geti stundað íþróttir sér til heilsueflinar og þannig rofið félagslega einangrun. Íþrótta- og ævintýrabúðirnar verða haldnar að Laugarvatni dagana 11.-14. júní næstkomandi og þurfa umsóknir að hafa borist í síðasta lagi föstudaginn 31. maí.

Til að sækja um er hægt að smella á þennan tengil en þar má nálgast skráningarsíðu fyrir verkefnið.

Nánari upplýsingar má finna í tenglinum hér að ofan en í þessum fyrstu búðum verður pláss fyrir allt að 30 einstaklinga á ólíkum aldri og með ólíkar fatlanir. Kostnaði er stillt í hóf því hér er um tilraunaverkefni að ræða og að ÍF fagnar um þessar mundir 40 ára afmæli.

Þátttökugjaldið er kr. 20.000. Innifalið í gjaldinu eru ferðir (Rvk- Laugarvatn- Rvk), fjölbreytt dagskrá auk fæðis og gistingar. Nánari upplýsingar veita íþróttakennararnir og
skipuleggjendur:

Linda Kristinsdóttir s:862 7555
Halldór Sævar Guðbergsson s: 663 9800
Jóhann Arnarson s: 848 4104

Sjá nánar á heimasíðu ÍF

Fjörður bikarmeistari 12. árið í röð

Fjörður varð nú um helgina bikarmeistari í sundi 12. árið í röð en bikarmót ÍF var haldið með nýju sniði og hét nú Bikar- og flokkamót ÍF í sundi. ÍFR varð í öðru sæti og Ösp í því þriðja. Þetta er sannarlega frábær árangur hjá sundmönnunum okkar sem sönkuðu að sér fjölmörgum flokkameistaratitlum. Sumir af okkar sundmönnum voru að keppa á sínu fyrsta bikarmóti og tveir af okkar yngri sundmönnum, Kristrún Helga Þórðardóttir og Guðmundur Atli Sigurðsson, voru fyrirliðar og tóku við bikarnum úr hendi Þórðar Hjaltested formanns ÍF. Hér að neðan má sjá nokkar myndir af mótinu.

Flottur fyrsti dagur á Íslandsmótinu í 50m laug

Þessa helgina fer fram Íslandsmeistaramót í sundi í 50m laug í Laugardalslauginni. Sundmennirnir okkar stóðu sig glæsilega á fyrsta deginum. Hjörtur Már Ingvarsson fékk gull í 50m skriðsundi. Guðfinnur Karlsson sigraði í 100m bringusundi og varð annar í 400m skriðsundi og Heiður Björg Egilsdóttir fékk silfurverðlaun í 50m skriðsundi. Róbert Ísak Jónsson gerði sér svo lítið fyrir og fékk gull í 100m bringusundi og 100m flugsundi. Í báðum þessum greinum komst hann í úrslit meðal ófatlaðra þar sem hann lenti í fimmta sæti í bringusundinu og varð annar í flugsundinu á nýju Íslandsmeti. Þetta met tryggði honum einnig A lágmark fyrir Paralympics leikana sem haldnir verða á næsta ári í Tokyo. Flottur árangur hjá sundmönnunum okkar og verður gaman að sjá hvað þeir gera á seinni tveimur dögunum.

Einnig fer fram nú um helgina Íslandsmeistaramót í liðakeppni í boccia. Fjörður sendir fjórar sveitir til leiks og verður áhugavert að sjá hvernig þeim gengur.

Flottir Fjarðarliðar á Special Olympics og Íslandsmet á Ásvallamótinu

Aníta og Gunnar Pétur

Aníta og Gunnar Pétur

Sjö Fjarðarliðar lögðu land undir fót fyrr í mánuðinum til að taka þátt i Special Olympics í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Það er ekki ofsögum sagt að árangurinn hafi verið glæsilegur og verðlaunin flæddu til Fjarðarliða. Þó voru aðeins tveir þeirra að keppa í sundi en liðsmenn okkar eru greinilega fjölhæfir og standa sig vel í öðrum iþróttum.

Sundmennirnir okkar vour þau Bára Sif Ólafsdóttir og Róbert Erwin. Bára Sif hlaut gullverðlaun í 100m baksundi og silfur í 100m skriðsundi og Róbert fékk brons í 100m skriðsundi.

Ásmundur Þór Ásmundsson og Elín Fanney Ólafsdóttir kepptu í golfi. Ásmundur nældi í silfurverðlaun á mótinu og Elín Fanney lenti í fjórða sæti, hársbreidd frá verðlaunapalli.

Unnar Ingi Ingólfsson keppti í fimleikum og gerði sér lítið fyrir og fékk gull í stökki og bronsverðlaun í hringjum.

Síðast en ekki síst er það Aníta Ósk Hrafnsdóttir sem fékk gullverðlaun í kúluvarpi, silfur i langstökki og silfur í 4x100m boðhlaupi. Þjálfari Anítu í frjálsum íþróttum er Gunnar Pétur Harðarson en saman sjá þau um að þjálfa yngsta hópinn okkar í sundinu.

Við óskum þessum frábæru íþróttamönnum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

Um helgina 16. – 17. mars fór fram Ásvallamót SH í sundi og náðu Fjarðarmenn flottum árangri þar. Hjörtur Már Ingvarsson setti tvö Íslandsmet, í 50m og 100m skriðsundi í flokki S5. Auk þess vann Róbert Ísak Jónsson til fernra verðlauna á mótinu en hann hafði sigur í 100m flugsundi, fékk silfur fyrir 200m fjórsund og brons í 200m skriðsundi og 100m bringusundi. Innilega til hamingju með þetta drengir.