Fjarðarmótið 2017

Fjarðarmótið 2017 fer fram 15. október næstkomandi í Ásvallalaug. Nánari tímasetningar verða auglýstar þegar nær dregur. Mótið er IPC mót sem þýðir að þau Íslandsmet sem sett eru á mótinu eru gild.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Opnað hefur verið fyrir skráningar

Opnað hefur verið fyrir skráningar iðkenda í sund hjá Firði. Það er gert með því að velja „Skráning“ hér að ofan á síðunni og velja viðeigandi skráningarmöguleika. Ef nýta á niðurgreiðslu frá Hafnarfjarðarbæ er nauðsynlegt að velja „Skráning barna“ og fara í gegnum íbúagáttina hjá bænum og velja svo Íþróttabandalag Hafnarfjarðar. Ekki dugar að velja Íþróttafélagið Fjörður. Þeim sem ætla að nýta niðurgreiðsluna bendum við einnig á að ganga frá skráningum sem fyrst því niðurgreiðslan frá bænum lækkar ef það er látið bíða.

Í boði eru eins og í fyrra fjórir flokkar. Yngsti hópurinn, höfrungar, æfir undir stjórn Gunnars Péturs Harðarsonar klukkan 17:00 – 18:00 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Miðhópurinn, sverðfiskar, æfir undir stjórn Hallgríms Þórs Harðarsonar og Þórunnar Guðmundsdóttur á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum klukkan 18:00 – 19:00. Afrekshópurinn, hákarlar, æfa svo alla virka daga klukkan 16:00 – 18:00 og á laugardögum klukkan 10:00 – 12:00. Garpahópurinn mætir svo á æfingar með hákörlum á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum klukkan 17:00 – 18:00. Hallgrímur Þór sér um þjálfun afrekshópsins og garpahópsins. Íþróttaskólinn sem hefur verið starfræktur á laugardögum undanfarin ár verður því miður ekki í boði í vetur.

Allir eru að sjálfsögðu velkomnir að prófa að mæta á æfingar hjá félaginu þrátt fyrir að hafa ekki gengið frá skráningum.

Hægt að styrkja Fjörð inni á hlaupastyrkur.is

Hægt er að styrkja Íþróttafélagið Fjörð inni á vefsíðunni hlaupastyrkur.is. Við hvetjum alla velunnara Fjarðar til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og safna áheitum fyrir Fjörð í leiðinni með því að skrá sig inni á hlaupastyrkur.is. Þá sem treysta sér ekki til að hlaupa hvetjum við að sjálfsögðu til að heita á þá sem hlaupa fyrir Fjörð. Hér má sjá þá sem ætla að hlaupa fyrir Fjörð.

Róbert Ísak valinn til þátttöku á HM í sundi

Róbert Ísak Jónsson tekur þátt í HM í sundi síðar á árinu.

Róbert Ísak Jónsson

Róbert Ísak Jónsson, 16 ára sundmaður úr Firði, hefur verið valinn til þátttöku á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi í Mexíkó dagana 30. september – 7. október 2017. Róbert Ísak náði fyrr á árinu A lágmarki fyrir heimsmeistarmótið í 100m flugsundi á KR mótinu sem fram fór í febrúar síðastliðnum. Hann stóð sig svo einnig frábærlega á Opna breska mesitaramótinu sem fór fram í Sheffield í apríl. Þar setti hann meðal annars Íslandsmet í 100m baksundi og stóð sig feykivel í öðrum greinum.

Við óskum Róberti Ísaki innilega til hamingju með þennan árangur og óskum honum góðs gengis á heimsmeistaramótinu.