Flottur fyrsti dagur á Íslandsmótinu í 50m laug

Þessa helgina fer fram Íslandsmeistaramót í sundi í 50m laug í Laugardalslauginni. Sundmennirnir okkar stóðu sig glæsilega á fyrsta deginum. Hjörtur Már Ingvarsson fékk gull í 50m skriðsundi. Guðfinnur Karlsson sigraði í 100m bringusundi og varð annar í 400m skriðsundi og Heiður Björg Egilsdóttir fékk silfurverðlaun í 50m skriðsundi. Róbert Ísak Jónsson gerði sér svo lítið fyrir og fékk gull í 100m bringusundi og 100m flugsundi. Í báðum þessum greinum komst hann í úrslit meðal ófatlaðra þar sem hann lenti í fimmta sæti í bringusundinu og varð annar í flugsundinu á nýju Íslandsmeti. Þetta met tryggði honum einnig A lágmark fyrir Paralympics leikana sem haldnir verða á næsta ári í Tokyo. Flottur árangur hjá sundmönnunum okkar og verður gaman að sjá hvað þeir gera á seinni tveimur dögunum.

Einnig fer fram nú um helgina Íslandsmeistaramót í liðakeppni í boccia. Fjörður sendir fjórar sveitir til leiks og verður áhugavert að sjá hvernig þeim gengur.

Flottir Fjarðarliðar á Special Olympics og Íslandsmet á Ásvallamótinu

Aníta og Gunnar Pétur

Aníta og Gunnar Pétur

Sjö Fjarðarliðar lögðu land undir fót fyrr í mánuðinum til að taka þátt i Special Olympics í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Það er ekki ofsögum sagt að árangurinn hafi verið glæsilegur og verðlaunin flæddu til Fjarðarliða. Þó voru aðeins tveir þeirra að keppa í sundi en liðsmenn okkar eru greinilega fjölhæfir og standa sig vel í öðrum iþróttum.

Sundmennirnir okkar vour þau Bára Sif Ólafsdóttir og Róbert Erwin. Bára Sif hlaut gullverðlaun í 100m baksundi og silfur í 100m skriðsundi og Róbert fékk brons í 100m skriðsundi.

Ásmundur Þór Ásmundsson og Elín Fanney Ólafsdóttir kepptu í golfi. Ásmundur nældi í silfurverðlaun á mótinu og Elín Fanney lenti í fjórða sæti, hársbreidd frá verðlaunapalli.

Unnar Ingi Ingólfsson keppti í fimleikum og gerði sér lítið fyrir og fékk gull í stökki og bronsverðlaun í hringjum.

Síðast en ekki síst er það Aníta Ósk Hrafnsdóttir sem fékk gullverðlaun í kúluvarpi, silfur i langstökki og silfur í 4x100m boðhlaupi. Þjálfari Anítu í frjálsum íþróttum er Gunnar Pétur Harðarson en saman sjá þau um að þjálfa yngsta hópinn okkar í sundinu.

Við óskum þessum frábæru íþróttamönnum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

Um helgina 16. – 17. mars fór fram Ásvallamót SH í sundi og náðu Fjarðarmenn flottum árangri þar. Hjörtur Már Ingvarsson setti tvö Íslandsmet, í 50m og 100m skriðsundi í flokki S5. Auk þess vann Róbert Ísak Jónsson til fernra verðlauna á mótinu en hann hafði sigur í 100m flugsundi, fékk silfur fyrir 200m fjórsund og brons í 200m skriðsundi og 100m bringusundi. Innilega til hamingju með þetta drengir.

Aðalfundarboð

Aðalfundur Fjarðar verður haldinn þriðjudaginn 26. mars 2019 í Ásvallalaug, fundarsal 2. hæð og hefst kl. 21:00.
Dagskrá er sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Reikningar félagsins.
4. Skýrsla stjórnar og reikningar lagðir fyrir fund til samþykktar.
5. Skýrsla foreldrafélags.
6. Kosið í fastar nefndir félagsins.
7. Lagabreytingar.
8. Kosning stjórnar og félagslegra skoðunarmanna reikninga félagsins.
9. Félagsgjöld/árgjöld.
10. Önnur mál.
11. Fundarslit.

Blað brotið í sögu ÍF – þrír frá Firði gera samning við ÍF

if-samningar-mars-2019net


Mynd fengin af heimasíðu ÍF / www.ifsport.is

Nýtt blað var brotið í sögu íþrótta fatlaðra á Íslandi í dag þegar Íþróttasamband fatlaðra gerði samninga við fimmtán aðila úr afrekshópi sambandsins. Í fyrsta sinn eru afreksmenn ÍF með virkan samning við sambandið og um leið er þetta metupphæð sem sambandið setur í afreksíþróttafólkið og verkefni þeirra eða rétt tæpar 25 milljónir króna!

Þrír sundmenn úr Firði voru meðal þeirra sem skrifuðu undir slíkan samning í dag, þeir Róbert Ísak Jónsson, Hjörtur Már Ingvarsson og Guðfinnur Karlsson. Þetta er glæsilegt skref sem Íþróttasamband Fatlaðra stígur í dag og óskum við Róberti Ísak, Hirti og Guðfinni sem og öðrum sem skrifuðu undir slíkan samning innilega til hamingju með það.

Sjá nánar á vef ÍF