Róbert Ísak fjórfaldur Norðurlandameistari

Róbert Ísak Jónsson / Mynd af Facebook síðu Íþróttasambands fatlaðra

Róbert Ísak Jónsson / Mynd af Facebook síðu Íþróttasambands fatlaðra

Við sögðum frá því fyrir helgi að Róbert Ísak Jónsson hefði orðið tvöfaldur Norðurlandameistari. Hann gerði svo enn betur um helgina og bætti tveimur titlum í safnið og er því fjórfaldur Norðurlandameistari fatlaðra 2018. Á laugardaginn varð hann fyrstur í 100m flugsundi á tímanum 59,65. Hann lauk svo mótinu með því að sigra í 200m fjórsundi á tímanum 2:14,92. Algerlega frábær árangur hjá Róberti Ísak og óskum við honum innilega til hamingju. Tanya Jóhannsdóttir og Heiður Björg Egilsdóttir syntu í úrslitum í 50m skriðsundi og urðu jafnar í 6. sæti. Guðfinnur Karlsson var svo síðastur Íslendinga til að synda á mótinu þegar hann varð fjórði í 400m skriðsundi á tímanum 5:32,86.
Til hamingju allir með flott Norðurlandamót.

Öll úrslit í mótinu má svo nálgast hér.

Róbert Ísak tvöfaldur Norðurlandameistari í dag

Róbert Ísak Jónsson úr Firði varð í dag tvöfaldur Norðurlandameistari fatlaðra. Hann byrjaði daginn á að koma fyrstur í mark í 200m skriðsundi á tímanum 2:00,60, tæpum tveimur sekúndum á undan Finnanum Nader Khalili. Hann bætti svo öðrum titli við í 100m bringusundi þegar hann kom í mark á tímanum 1:10,44. Norðmaðurinn Andreas Skår Bjørnstad varð annar. Guðfinnur Karlsson keppti einnig í þeirri grein og varð sjötti á tímanum 1:26,58, hann keppti svo einnig í 100m baksundi og endaði sjöundi á tímanum 1:26,22. Tanya Jóhannsdóttir keppti í morgun í 100m baksundi en komst ekki í úrslit

Við óskum okkar keppendum til hamingju með glæsilegan árangur og hlökkum til að sjá hvað þau gera um helgina en mótið stendur fram á sunnudag. Fylgjast má með úrslitum mótsins hér.

Róbert Ísak er Best Male Junior athlete á World Series mótaröðinni

44057197_1789717934470262_7115447533026934784_nVegna mistaka á Opna breska meistaramótinu í Sheffield fyrr á árinu þá skiluðu þau stig sér ekki í kerfið hjá IPC. Eftir að það var leiðrétt kom í ljós að Róbert Ísak Jónsson hefði með réttu átt að fá verðlaunin „Best Male Junior athlete“ á World Series mótaröðinni og mun hann fá þau verðlaun afhent á næsta alþjóðlega móti sem hann tekur þátt í. Þetta kórónar aldeilis frábært ár hjá Róberti Ísak en á árinu hefur hann meðal annars:

  • sett heims- og Evrópumet í 400m fjórsundi í flokki S14
  • sett 18 Íslandsmet
  • unnið 14 Íslandsmeistaratitla
  • er tvöfaldur bikarmeistari í sundi
  • fengið tvenn silfurverðlaun á Evrópumóti fatlaðra í sundi
  • unnið Sjómannabikarinn á Nýársmóti ÍF þriðja árið í röðRóbert Ísak er að sjálfsögðu ekki eini íþróttamaður Fjarðar sem hefur gert góða hluti á árinu en auk Róberts hafa Tanya Jóhannsdóttir, Guðfinnur Karlsson, Hjörtur Már Ingvarsson, Ragnar Ingi Magnússon og Aníta Ósk Hrafnsdóttir unnið til Íslandsmeistaratitla á árinu. Hjörtur Már og Guðfinnur hafa báðir synt undir gildandi heimsmetum í sínum flokkum, Hjörtur Már í 200m bringusundi í flokki SB4 og Guðfinnur í 800m skriðsundi í flokki S11. Í byrjun desember munu svo fulltrúar Fjarðar taka þátt á Norðurlandamótinu í Finnlandi og gefst þar tækifæri til að bæta fleiri verðlaunum við safnið. Þar að auki varð Fjörður bikarmeistari ÍF í sundi 11. árið í röð, fyrirliðar voru Tanya Jóhannsdóttir og Ragnar Ingi Magnússon.

Fjörður óskar að sjálfsögðu öllum þessum frábæru íþróttamönnum til hamingju með glæsilegan árangur og hlakkar til að fylgjast með þeim á komandi árum.

Jólamót Fjarðar í boccia 2018

Jólamót Fjarðar í boccia fór fram nýliðna helgi. 14 keppendur voru skráðir til leiks og hafa oft verið fleiri en veður og veikindi höfðu nokkur áhrif. Glæsileg tilþrif sáust og gleðin var ríkjandi. Svo fór að Einar Kr. Jónsson stóð uppi sem sigurvegari þriðja árið í röð, Jón Hrafnkell Árnason (Nonni) varð í öðru sæti, Svavar Halldórsson í þriðja sæti og Bjarki Þórhallsson í því fjórða. Lionsklúbbur Hafnarfjarðar sá um dómgæslu og Markó merki gáfu verðlaun og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá mótinu.