Róbert Ísak með silfur og Íslandsmet í 100m baksundi

Róbert Ísak Jónsson heldur áfram að fara á kostum á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi í Mexíkó. Í nótt náði hann sér í enn ein verðlaunin þegar hann kom annar í mark í 100m baksundi í flokki S14 á tímanum 1:06,99 sem er nýtt Íslandsmet. Gamla metið sem var 1:07,81 átti Róbert Ísak sjálfur, sett í Sheffield fyrr á árinu. Frábær árangur hjá Róbert Ísak í enn einu sundinu og óskum við honum að sjálfsögðu innilega til hamingju með árangurinn. Áhugasamir geta séð úrslitasundið hér. Í fyrradag keppti Róbert Ísak í 200m metra skriðsundi þar sem hann varð fjórði. Síðar í dag syndir Róbert Ísak svo síðasta sundið sitt á mótinu þegar hann keppir í 100m flugsundi.

Róbert Ísak heimsmeistari í 200m fjórsundi

Róbert Ísak með foreldrum sínum eftir að hafa tekið á móti gullverðlaununum (Mynd fengin af facebook síðu Söndru Hraunfjörð)

Róbert Ísak með foreldrum sínum eftir að hafa tekið á móti gullverðlaununum (Mynd fengin af facebook síðu Söndru Hraunfjörð)

Enn og aftur fer Róbert Ísak Jónsson gjörsamlega á kostum. Í nótt, að íslenskum tíma, varð hann heimsmeistari í 200m fjórsundi í flokki S14 í Mexíkó. Róbert Ísak sem átti næstbesta tímann fyrir mótið kom í mark á 2:19,34, rúmum tveimur sekúndum á undan Suður-Kóreumanninum Cho Wonsang sem varð annar. Þetta er að sjálfsögðu frábær árangur hjá Róbert Ísaki en áður var hann búinn að vinna til silfurs í 100m bringusundi. Við óskum honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þennan glæsilega sigur. Enn á Róbert Ísak eftir að synda þrjú sund og verður spennandi að sjá hvað hann gerir næstu daga.

Róbert Ísak með silfur á HM í Mexíkó

Róbert Ísak ásamt föður sínum í Mexíkó (Mynd Sandra Hraunfjörð).

Róbert Ísak ásamt föður sínum í Mexíkó (Mynd Sandra Hraunfjörð).

Fjarðarliðinn Róbert Ísak Jónsson vann um helgina silfur í 100m bringusundi í flokki S14 á Heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fer fram í Mexíkó þessa dagana. Róbert synti á 1:13,65 en Norðmaðurinn Adam Ismael Wenham tók gullið. Þess má geta að Róbert Ísak er aðeins sextán ára og á því framtíðina fyrir sér. Róbert Ísak á eftir að keppa í fjórum greinum til viðbótar en dagskráin er eftirfarandi:

  • 4. desember, 200m fjórsund
  • 5. desember, 200m skriðsund
  • 6. desember, 100m baksund
  • 7. desember, 100m flugsund

Áhugasamir geta fylgst með árangri Róberts Ísaks hér. Til hamingju Róbert Ísak.

Um helgina 24. – 26. nóvember fór fram Norðurlandamót fatlaðra í sundi í Ásvallalaug. Þar voru að sjálfsögðu nokkrir sundmenn frá Firði og náðu þeir frábærum árangri. Helst má telja að Róbert Ísak Jónsson varð stigahæsti karlmaður mótsins í ungmennaflokki og Guðfinnur Karlsson setti Íslandsmet í 50m baksundi í flokki S11 þegar hann synti á 38,55s. Að auki unnu Fjarðarmenn nokkra Norðurlandatitla, bæði í einstaklingsgreinum og boðsundum, og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Íslandsmet á Erlingsmóti, Íslandsmót ÍF og Norðurlandamót

Ýmislegt hefur á daga okkar drifið undanfarnar vikur. Fyrst ber að geta að á Erlingsmótinu sem fram fór 4. og 5. nóvember síðastliðinn voru sett tvö Íslandsmet í 800m skriðsundi. Þar voru á ferðinni þeir Hjörtur Már Ingvarsson og Guðfinnur Karlsson. Hjörtur Már setti metið í flokki S6 en Guðfinnur í flokki S11. Guðfinnur hafði einmitt sett Íslandsmet í þessari grein viku fyrr en bætti það aftur á Erlingsmótinu.

Íslandsmót ÍF í 25 metra laug fór fram um síðastliðna helgi 18. og 19. nóvember og syntu allnokkrir Fjarðarmenn á því. Allir stóðu þeir sig með prýði og ófáir Íslandsmeistaratitlarnir í húsi, bæði í einstaklingsgreinum sem og í boðsundum. Úrslit mótsins má nálgast hér.

Framundan er svo Norðurlandamótið sem fer fram í Ásvallalaug dagana 25. og 26. nóvember næstkomandi. Sex sundmenn Fjarðar munu stinga sér til sunds þar en það eru þau Tanya Elisabeth Jóhannsdóttir, Aníta Ósk Hrafnsdóttir, Sigríður Aníta Rögnvaldsdóttir, Hjörtur Már Ingvarsson, Guðfinnur Karlsson og Róbert Ísak Jónsson. Fjörður verður með veitingasölu á mótinu. Keppnisdagskrá mótsins má nálgast hér. Að sjálfsögðu hvetjum við alla að koma og styðja þetta frábæra sundfólk. Nóg er að gera hjá Róbert Ísaki því að helgina strax á mánudaginn 27. nóvember mun hann halda til Mexíkó þar sem hann mun keppa á Heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi. Þeir sem vilja fylgjast með ævintýrum Róberts Ísaks geta kíkt á Facebook síðu hans. Við óskum öllum þessum sundmönnum góðs gengis í komandi verkefnum.