Íslandsmet á Erlingsmóti, Íslandsmót ÍF og Norðurlandamót

Ýmislegt hefur á daga okkar drifið undanfarnar vikur. Fyrst ber að geta að á Erlingsmótinu sem fram fór 4. og 5. nóvember síðastliðinn voru sett tvö Íslandsmet í 800m skriðsundi. Þar voru á ferðinni þeir Hjörtur Már Ingvarsson og Guðfinnur Karlsson. Hjörtur Már setti metið í flokki S6 en Guðfinnur í flokki S11. Guðfinnur hafði einmitt sett Íslandsmet í þessari grein viku fyrr en bætti það aftur á Erlingsmótinu.

Íslandsmót ÍF í 25 metra laug fór fram um síðastliðna helgi 18. og 19. nóvember og syntu allnokkrir Fjarðarmenn á því. Allir stóðu þeir sig með prýði og ófáir Íslandsmeistaratitlarnir í húsi, bæði í einstaklingsgreinum sem og í boðsundum. Úrslit mótsins má nálgast hér.

Framundan er svo Norðurlandamótið sem fer fram í Ásvallalaug dagana 25. og 26. nóvember næstkomandi. Sex sundmenn Fjarðar munu stinga sér til sunds þar en það eru þau Tanya Elisabeth Jóhannsdóttir, Aníta Ósk Hrafnsdóttir, Sigríður Aníta Rögnvaldsdóttir, Hjörtur Már Ingvarsson, Guðfinnur Karlsson og Róbert Ísak Jónsson. Fjörður verður með veitingasölu á mótinu. Keppnisdagskrá mótsins má nálgast hér. Að sjálfsögðu hvetjum við alla að koma og styðja þetta frábæra sundfólk. Nóg er að gera hjá Róbert Ísaki því að helgina strax á mánudaginn 27. nóvember mun hann halda til Mexíkó þar sem hann mun keppa á Heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi. Þeir sem vilja fylgjast með ævintýrum Róberts Ísaks geta kíkt á Facebook síðu hans. Við óskum öllum þessum sundmönnum góðs gengis í komandi verkefnum.

Guðfinnur með Íslandsmet á Extramóti SH

Nokkrir fræknir sundmenn Fjarðar tóku um síðastliðna helgi þátt í Extramóti SH í Ásvallalaug. Helst bera að geta að Guðfinnur Karlsson setti á mótinu glæsilegt Íslandsmet í 800m skriðsundi í flokki S11 sem er flokkur alblindra en hann synti sundið á tímanum 11:36,21. Við óskum Guðfinni að sjálfsögðu innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Framundan er nóg um að vera hjá sundmönnunum okkar því um næstu helgi fer fram Erlingsmótið í Laugardalslauginni og mun Fjörður mæta með stóran og glæsilegan hóp á mótið. Tveimur vikum síðar fer svo fram Íslandsmótið í 25m laug og einni viku síðar verður Norðurlandamótið haldið í Ásvallalaug. Nokkrir sundmenn Fjarðar munu taka þátt á því.